Efnahagsleg áhrif Auðlindagarðsins

Efnahagsleg áhrif Auðlindagarðsins

Hlekkur á skýrslu Gamma

Á haustmánuðum 2014 var leitað til GAM Management ráðgjafar („GAMMA“) og óskað eftir úttekt og ráðgefandi skýrslu um stöðu, áhrif og möguleg tækifæri Auðlindagarðsins sem hefur byggst upp í kringum starfsemi HS Orku á Reykjanesskaga. Auðlindagarðurinn er nú farinn að leika stórt hlutverk í atvinnu- og verðmætasköpun á Suðurnesjum. Umsvif hans á Reykjanesi eru þó ekki eingöngu mikilvæg út frá efnahagslegu sjónarmiði heldur hefur hann einnig margvísleg jákvæð umhverfisáhrif og stuðlar að betri nýtingu á þeim auðlindastraumum sem verða til vegna jarðvarmans á Reykjanesskaganum. 

HS Orka og Bláa Lónið stóðu straum af kostnaði við gerð skýrslunnar en höfundarnir voru sjálfráðir um efnistök og greiningaraðferðir innan þess efnisramma sem mótaður var. GAMMA vann að skýrslunni og aðstoðaði dr. Friðrik Már Baldursson við ritun efnahagshluta skýrslunnar. 

Hér að neðan má sjá efnahagshlutann en skýrslu GAMMA í heild sinni má finna á pdf. skjali neðst á síðunni.

Frá árinu 2008 hefur Auðlindagarðurinn á Reykjanesi tekið stakkaskiptum og vaxið hratt. Þó svo að Auðlindagarðurinn hafi byggst upp í umróti eftirhrunsáranna er ljóst að það efnahagsástand sem myndaðist eftir 2008 var að mörgu leyti hagstætt fyrirtækjunum sem þar starfa, enda skapaði lægra raungengi góðar aðstæður fyrir útflutningsfyrirtæki. Hagfelldar ytri aðstæður skýra að hluta til hraðan vöxt fyrirtækjanna innan Auðlindagarðsins á sama tíma og íslenska hagkerfið var að rétta úr kútnum. Það má því segja að Auðlindagarðurinn hafi verið rétt staðsettur á ákjósanlegum tíma og að þróun hans endurspegli endurreisn utanríkisviðskipta fyrir landið í heild. Eftirfarandi umfjöllun er ætlað að varpa ljósi á eðli og umfang starfseminnar innan Auðlindagarðsins og hvert framlag hennar til verðmætasköpunar þjóðarbúsins hefur verið. Það er einnig vert að velta því fyrir sér hvernig Auðlindagarðurinn hefur stutt við atvinnustarfsemi á Suðurnesjum síðustu ár. Að lokum verður leitast við að skýra forsendur fyrir frekari vexti fyrirtækjanna innan Auðlindagarðsins og þá hagrænu krafta sem þar búa að baki.

Í opnu hagkerfi eins og því íslenska er utanríkisverslun einn meginaflvaki hagvaxtar. Annað megineinkenni íslensks hagkerfis er hversu háð það er náttúruauðlindum, einkum fiskistofnum og orkulindum. Að þessu leyti víkur íslenskt hagkerfi frá iðnvæddari hagkerfum. Þar sem um endurnýjanlegar auðlindir er að ræða lýtur íslensk hagvaxtarfræði öðru fremur að hagkvæmustu nýtingu þeirra til lengri tíma. Gildir þá einu hvort um er að ræða sjávarafurðir, orkunýtingu eða ferðaþjónustu (sem nýtir endurnýjanlega auðlind, íslenskrar náttúru).

Hagvaxtarfræði fjallar fyrst og fremst um það hvað ræður langtímavexti hagkerfa og er þá jafnan gert ráð fyrir því að framleiðsluþættir séu nýttir til fulls. Í hagkerfi sem byggir á náttúruauðlindum, eins og það íslenska, er mikilvægt að auka virði útflutnings með sérþekkingu og samnýtingu mannauðs og nýtingu afurða sem áður fóru til spillis. Það gerist m.a. vegna tækniframfara í viðkomandi framleiðslugreinum, en reynslan sýnir að samstarf fyrirtækja í sama geira eða mismunandi geirum getur einnig skipt verulegu máli þegar aukin nýting afurða er annars vegar.

Starfsemi Auðlindagarðsins er að mestu leyti á sviði orkuframleiðslu og ferðaþjónustu en þar er einnig að finna sjávarútvegsfyrirtæki auk nýsköpunar í líftækni og endurnýjun orkugjafa. Bróðurpartur framleiðslu Auðlindagarðsins fer á erlendan markað, og því skipta aðstæður til útflutnings miklu máli fyrir afkomu garðsins. Mynd 1 sýnir þróun útflutnings á nafnvirði á árunum 2009-2014 og skiptingu milli helstu útflutningsgreina landsins. Útflutningur jókst í heild um 20% árin 2009-2014 á föstu verðlagi, um 3,7% á ári. Einkum hefur vöxtur ferðaþjónustu verið mikill, en umsvif greinarinnar jukust um 59% frá 2009-2014, eða um 9,7% á ári (staðvirt með vísitölu neysluverðs). Mikill vöxtur ferðaþjónustu hefur skipt verulegu máli fyrir þróun Auðlindagarðsins, enda telst ferðaþjónusta núna til stærstu útflutningsgreinar landsins, en árið 2014 aflaði ferðaþjónusta um 28,4% af áætluðum gjaldeyristekjum landsins miðað við 15,5% árið 2009.

Mynd 1: Ferðaþjónusta hefur leitt  endurreisn utanríkisviðskipta

Eins og áður hefur komið fram hefur raungengi verið lágt (í sögulegu samhengi) á tímabilinu sem hér er til skoðunar. Lágt stig raungengis hefur stuðlað að aukinni samkeppnishæfni íslenskra fyrirtækja í útflutningi með tilheyrandi virðisaukningu útflutningsafurða. Mynd 2 sýnir þróun viðskiptajafnaðar og raungengis frá árinu 1995. Þar sést að viðskiptaafgangur hefur jafnan verið til staðar þegar raungengið er hlutfallslega lágt en halli hefur verið á utanríkisverslun þegar raungengið er hátt. Hagsveiflur undanfarinna áratuga hafa litast af því að raungengið hefur risið of hátt samhliða auknum hagvexti og hefur aukin einkaneysla þá ýtt undir aukinn innflutning, sem er gjarnan umfram það sem þjóðarbúið getur staðið undir til lengri tíma. Viðvarandi viðskiptahalli á árunum 2003 til 2008 er gott dæmi um slíkt tímabil. Á síðustu árum hefur aftur á móti verulegur viðsnúningur átt sér stað með jákvæðum viðskiptajöfnuði frá árinu 2012. Afgangur hefur verið af samanlögðum vöruskipta- og þjónustujöfnuði frá árinu 2009 og að frádregnum áhrifum gömlu bankanna hefur viðskiptajöfnuður á ársgrunni einnig verið jákvæður frá 2009 (munurinn á viðskiptajöfnuði og samanlögðum vöru- og þjónustujöfnuði felst fyrst og fremst í vaxtajöfnuði við útlönd).

Mynd 2: Raungengið mótar viðskiptajöfnuð

Mynd 3

Sterk viðspyrna Auðlindagarðsins í umróti eftirhrunsára

Eins og fyrr sagði eiga fyrirtækin innan Auðlindagarðsins það flest sammerkt að selja afurðir sínar, með einum eða öðrum hætti, til erlendra aðila, en meirihluti tekna Auðlindagarðsins telst til gjaldeyristekna. Viðspyrna fyrirtækjanna innan garðsins eftir fjármálakreppuna 2008-2010 var þar af leiðandi snarpari en hagkerfisins í heild. Þetta má sjá með því að skoða verðmætasköpun í Auðlindagarðinum, sem má meta með því að leggja saman rekstrarhagnað (EBITDA) og heildarupphæð greiddra launa. Hér eftir verður vísað til summu rekstrarhagnaðs (EBITDA) og heildarupphæðar greiddra launa fyrirtækjanna innan Auðlindagarðsins sem virðisauka, en það er sú stærð telst vera hin eiginlega verðmætasköpun starfseminnar. Mynd 3 sýnir að vöxtur virðisauka af starfsemi Auðlindagarðsins frá 2008-2013 var að meðaltali um 4% (staðvirt með vísitölu neysluverðs) á ári, á sama tíma og verg landsframleiðsla (á þáttavirði) dróst saman að meðaltali um 0,3% á ári. Frá 2008-2013 jókst virðisauki af starfsemi Auðlindagarðsins um rúmlega 21% en á sama tímabili dróst verg landsframleiðsla (á þáttavirði) saman um tæplega 2%.

Mynd 3: Verðmætasköpun Auðlindagarðsins hraðari en landsframleiðsla

Svipaða sögu er að segja ef horft er til hlutfalls virðisauka af starfsemi Auðlindagarðsins og vergrar landsframleiðslu (á þáttavirði) fyrir landið í heild en slíkt hlutfall ætti að sýna þróun fyrrnefndra stærða yfir tíma. Mynd 4 sýnir þetta hlutfall. Hlutfallið er stillt á 100 á árinu 2008 en stóð í 123 árið 2013 og hafði þá aukist um 23%. Af þessu má ráða að virðisaukning innan Auðlindagarðsins hafi verið 23% hraðari en sem nemur almennum vexti vergrar landsframleiðslu (á þáttavirði) fyrir landið í heild á sama tímabili.

Fimm meginástæður liggja að baki kröftugum vexti Auðlindagarðsins. Í fyrsta lagi er það jarðhitaauðlindin sjálf. Í öðru lagi skapaði fyrrnefnd lækkun raungengis hagstæðari aðstæður til atvinnureksturs í útflutningi, á sama tíma og sérþekking hefur byggst upp í orku- og álframleiðslu, ferðaþjónustu og öðrum greinum. Í þriðja lagi hefur staðsetningin á Suðurnesjum og nálægðin við eina alþjóðarflugvöll landsins skipt miklu máli, en aukin umsvif Auðlindagarðsins hafa oft á tíðum kallað á starfsmannafreka þjónustu sem ókleift væri að halda uppi ef innviðir og vinnumarkaður Suðurnesja væru ekki fyrir hendi. Í fjórða lagi má ætla að verulegt stærðar- og breiddarhagræði hafi náðst með starfseminni innan Auðlindagarðsins þar sem nálægð fyrirtækja innbyrðis hefur haft hagfelld áhrif á rekstur þeirra. Í fimmta og síðasta lagi nýtur svæðið nálægðar við höfuðborgarsvæðið með góðu framboði á sérhæfðri þjónustu og vinnuafli.

Mynd 4: Framleiðsla Auðlindagarðsins sem hlutfall af landsframleiðslu (vísitala stillt á 100 árið 2008)

Það er því ljóst að þær atvinnugreinar sem styðja við, drífa og auka virði útflutningsgreina gegna lykilhlutverki en engum blöðum er um það að fletta að frá 2009 hefur framlag þessara greina gegnt lykilhlutverki í efnahagslegri endurreisn landsins. Sem dæmi má nefna að árið 2013 stóðu utanríkisviðskipti að baki nánast öllum vexti vergrar landsframleiðslu. Mynd 5 sýnir framlag utanríkisviðskipta til hagvaxtar og inniheldur spá Seðlabanka Íslands um utanríkisviðskipti á árinu 2015. Þrátt fyrir vöxt í útflutningi árin 2014-2015 er framlagið neikvætt þessi ár; skýringin er vöxtur innflutnings, knúinn af uppsveiflu í innlendri eftirspurn.

Á árunum 2008-2013 jókst virðisauki innan Auðlindagarðsins um rúmlega 21%. Á sama tímabili dróst verg landsframleiðsla (á þáttavirði) saman um tæplega 1,7%. Af því má ráða að verðmætasköpun innan Auðlindagarðsins hafi verið umtalsvert meiri en sem nemur verðmætasköpun þjóðarbúsins á sama tímabili. Verðmætasköpun Auðlindagarðsins frá 2008-2013 endurspeglast þá einnig í um það bil 30% hærri launum að meðaltali en atvinnutekjur á landsvísu. Auðlindagarðinum starfa nú um 500 manns og ætla má að önnur 600 afleidd störf verði til vegna starfseminnar sem þar er að finna.

Mynd 5: Verðmætasköpun Auðlindagarðsins

02

Auðlindagarðurinn og vinnumarkaður á Suðurnesjum

Á því tímabili sem er til skoðunar hér hafa meðaltekjur á Suðurnesjum verið með þeim lægstu á landinu, og allt frá árinu 2006 hefur atvinnuleysi á Suðurnesjum verið að jafnaði 3% hærra en á landinu öllu. Til marks um þetta voru meðaltekjur á Suðurnesjum um 88% af meðaltekjum á landinu öllu árið 2012. Nokkrar ástæður liggja að baki. Í fyrsta lagi er ljóst að vinnumarkaðurinn á Suðurnesjum hefur ekki náð vopnum sínum eftir brotthvarf bandaríska hersins um miðjan síðasta áratug, en mynd 6 sýnir að sú aukning á atvinnuleysi sem átti sér stað árið 2006 hefur enn ekki gengið til baka að fullu.

Mynd 6: Þróun atvinnuleysis á landinu öllu og Suðurnesjum

Í öðru lagi er ljóst er að fjármálakreppan 2008 kom sérstaklega illa við atvinnustarfsemi sem var umsvifamikil á Suðurnesjum. Á árunum 2009-2011 lagðist t.d. mestöll byggingar- og verktakastarfsemi á landinu en fyrirtæki í byggingar og mannvirkjagerð höfðu verið mjög fyrirferðamikil á svæðinu. Tafla 1 sýnir skiptingu milli atvinnugreina á svæðinu árið 2005 en þar má sjá að Iðngreinar ásamt frumvinnsluatvinnugreinum stóðu fyrir um 35% af heildarstarfsafla á Suðurnesjum, en sambærilegt hlutfall á Höfuðborgarsvæðinu nam um 18% árið 2005.

Tafla 1: Fjöldi starfandi eftir atvinnugreinum á Suðurnesjum árið 2005

Svipaða sögu er að segja ef horft er til skiptingar framleiðslu á atvinnugreinar, en þar má sjá að fiskveiðar og vinnsla, Iðnaður og fjárfestingar námu um 37% af framleiðslu á svæðinu árið 2008 miðað við 17% á Höfuðborgarsvæðinu. Það þarf því ekki að koma á óvart að atvinnumarkaður á Suðurnesjum hafi verið einkar viðkvæmur fyrir þeim samdrætti sem fylgdi í kjölfar fjármálakreppunnar 2008,  en eins og fyrr sagði varð byggingar og mannvirkjagerð sérstaklega illa úti á árunum eftir 2009.

Í þriðja lagi varð samdráttur í útgerð, og minna varð úr framkvæmdum í Helguvík en til stóð. Afleiðingarnar létu ekki á sér standa, en frá 2008-2010 minnkaði heildarfjöldi starfa um tæplega 2.000 störf. Það eru um 16,4% af heildarfjölda starfa á Suðunesjum, en slíkur samdráttur á sér fá fordæmi í íslenskri hagsögu. Til að bæta gráu ofan á svart lækkaði fasteignaverð verulega á svæðinu, en íbúðum í Reykjanesbæ fjölgaði um 3.500 milli 2003-2010, eða um 77% miðað við heildarfjölda fasteigna sem fyrir var. 

Tafla 2: Skipting framleiðslu á atvinnugreinar 2008


Í kjölfarið lækkaði fasteignaverð í Reykjanesbæ um 35% raunvirði frá 2008-2014. Mynd 7 sýnir heildarfjölda starfa á Suðurnesjum á tímabilinu 1998-2013.

Mynd 7: Heildarfjöldi starfa á Suðurnesjum

Velta má því fyrir sér hvert ástand á vinnumarkaði á Suðurnesjum hefði orðið ef þróunin innan Auðlindagarðsins væri ekki eins og raun ber vitni. Spurningin er hversu mikil áhrif aukin umsvif fyrirtækjanna innan garðsins hafa haft á almennan vinnumarkað á Suðurnesjum. Árið 2013 störfuðu um 500 manns innan Auðlindagarðsins og hafði þá fjölgað um tæplega 150 frá árinu 2009, um rúm 40%. Að teknu tilliti til afleiddra starfa má reikna með að fyrir hvert stöðugildi innan Auðlindagarðsins verði til um það bil eitt afleitt stöðugildi utan hans í tengdri starfsemi, enda ná áhrif starfseminnar langt út fyrir Auðlindagarðinn sjálfan. Dæmi um slíka starfsemi eru kaup fyrirtækja innan garðsins á ýmiss konar vörum og þjónustu, sem og úthýsing á starfsemi. Að viðbættum margföldunaráhrifum má því ætla að Auðlindagarðurinn skapi á bilinu 1.000–1.100 störf með einum eða öðrum hætti, eða um 10% af heildarfjölda starfa á Suðurnesjum.

Að gefinni þeirri forsendu að einn af hverjum þremur starfsmönnum Auðlindagarðsins hefði skráð sig atvinnulausan á Suðurnesjum en ekki í Reykjavík og nágrenni, og ekki fengið vinnu annars staðar, má ætla að atvinnuleysi hefði að meðaltali verið verið um tveimur prósentustigum hærra ef Auðlindagarðsins hefði ekki notið við. Einkum er líklegt að aukin umsvif fyrirtækjanna innan Auðlindagarðsins í þjónustu og ferðamennsku hafi átt ríkan þátt í því að lækka atvinnuleysi meðal ófaglærðra á svæðinu. Mynd 8 sýnir þróun atvinnuleysis frá 1998 á landinu öllu ásamt Suðurnesjum, ásamt áætluðu atvinnuleysi ef Auðlindagarðsins hefði ekki notið við með þeirri forsendu sem er gefin að framan.

Mynd 8: Atvinnuleysi á Suðurnesjum án Auðlindagarðsins?

Frá árinu 2012 hefur verulega dregið úr atvinnuleysi á Suðurnesjum (sem og landinu öllu), en myndir 6 og 8 sýna að árið 2014 stóð atvinnuleysi á Suðurnesjum í 5,7% miðað við 13% árið 2010 og hafði þá heldur dregið saman með atvinnuleysi á landinu öllu og Suðurnesjum. Miðað við framangreinda forsendu má ætla að ef Auðlindagarðsins hefði ekki notið við hefði atvinnuleysi á Suðurnesjum staðið í um 8% árið 2014. Það er því ljóst að tilkoma Auðlindagarðsins átti verulegan þátt í yfirstandandi endurreisn vinnumarkaðarins á Suðurnesjum. Árið 2014 var áætlaður heildarfjöldi starfa á Suðurnesjum um 11.200 (sjá mynd 7) og hafði þá fjölgað um 1.700 störf síðan 2009. Miðað við þá fjölgun starfa sem hefur átt sér stað í Auðlindagarðinum síðan 2011 má áætla að tæplega eitt af hverjum fjórum nýjum störfum sem skapast hafa á Suðurnesjum hafi tengst Auðlindagarðinum með einum eða öðrum hætti (að teknu tilliti til afleiddra starfa). Mynd 9 sýnir ársbreytingu á fjölda starfa innan Auðlindagarðsins og á almennum vinnumarkaði á Suðurnesjum frá 2010-2014.

Mynd 9: Eitt af hverjum fjórum nýjum störfum á Suðurnesjum hefur orðið til í Auðlindagarðinum

Telja má að aldursskipting og menntun vinnuafls á Suðurnesjum hafi að mörgu leyti verið hagstæð þeim fyrirtækjum sem þar starfa, einkum eftir 2011 þegar ferðaþjónusta tók við sér og ál- og orkuverð tóku að hækka. Til dæmis er líklegt að ferðaþjónusta hafi notið góðs af miklu framboði ungs, ófaglærðs vinnuafls á Suðurnesjum síðustu ár, en slíkt er nauðsynlegt svo að þjónustufrek atvinnustarfsemi fái þrifist. Aldursskipting á Suðurnesjum er einnig hagstæð í ljósi mikils fjölda fólks á vinnualdri, en slíkt er nauðsynleg forsenda frekari vaxtar. Á næstu árum er von á stórri kynslóð út á vinnumarkað sem mun styrkja svæðið enn frekar í efnahagslegu tilliti. Í lok árs 2014 bjuggu 21.560 manns á Suðurnesjum og hafði þá fjölgað um 1,7% frá fyrra ári. Þar af voru um 13.600 á aldrinum 20-70 ára. Mynd 10 sýnir aldursskiptingu mannfjölda á Suðurnesjum árið 2013.

Mynd 10: Mannfjöldi er að jafnaði yngri á Suðurnesjunum
Launaþróun innan Auðlindagarðsins

Launaþróun innan Auðlindagarðsins

Mynd 11: Atvinnutekjur að jafnaði 30% hærri í Auðlindagarðinum

Þegar hefur verið fjallað um virðisaukningu í framleiðslu fyrirtækjanna innan Auðlindagarðsins í kaflanum hér á undan. Önnur leið til að skoða verðmætasköpun er að bera saman launaþróun á almennum vinnumarkaði og launaþróun meðal fyrirtækjanna innan Auðlindagarðsins. Alla jafna ætti framleiðnivöxtur að endurspeglast í launaþróun og tilheyrandi kaupmáttaraukningu, a.m.k. til lengri tíma. Mynd 11 sýnir þróun heildarmánaðarlauna að meðaltali á verðlagi ársins 2014, frá 2008-2013, hjá fyrirtækjum Auðlindagarðsins ásamt atvinnutekjum á landinu öllu, Höfuðborgarsvæðinu og Suðurnesjum.

Á tímabilinu sem hér er til skoðunar, hafa meðallaun innan Auðlindagarðsins verið að meðaltali 30% hærri en laun á landsvísu. Líklegt má telja að verðmætasköpun Auðlindagarðsins (sem fjallað var um hér að framan) umfram landframleiðslu (á þáttavirði) sé ástæða þess að laun séu að meðaltali hærri innan garðsins. Það má því segja að stig framleiðni endurspeglist í greiddum launum innan garðsins, og sé nokkurn veginn í línu við það sem þegar hefur komið fram (sjá mynd 4). Hugsanlegt er þó að mismunandi þróun vinnutíma hafi hér einhver áhrif, en þetta gefur engu að síður vísbendingu um að fyrirtækin í Auðlindagarðinum hafi haft hærri framleiðni á tímabilinu en sem nemur framleiðni þjóðarbúsins á sama tíma.

Hér má einnig sjá að að þróun launa innan Auðlindagarðsins og launa á landsvísu frá 2008 hefur verið með svipuðum hætti. Frá því að hagkerfið tók aftur við sér árið 2011 hafa mánaðarlaun innan Auðlindagarðsins hækkað um tæplega 5% miðað við rúmlega 6% hækkun á landsvísu (staðvirt með vísitölu neysluverðs) en laun innan Auðlindagarðsins höfðu þá lækkað um 14,5% síðan 2008, miðað við 16,5% lækkun á landsvísu (staðvirt með vísitölu neysluverðs). Það má því segja að sveiflur á almennum vinnumarkaði hafi haft umtalsverð áhrif á vinnumarkað Auðlindagarðsins, þó svo að fyrirtæki garðsins séu mestmegnis útflutningsfyrirtæki og ættu þar af leiðandi að hafa innbyggða vörn gagnvart innlendum hagsveiflum.

Árið 2013 voru heildarmánaðarlaun innan Auðlindagarðsins að meðaltali um 535 þúsund krónur miðað við 373 þúsund krónur á almennum vinnumarkaði og 390 þúsund krónur á Suðurnesjum (án tillits til starfshlutfalls eða tegundar starfs né fjármagnstekna).

Annar mælikvarði á framleiðni innan garðsins er framleiðsla á hvern starfsmann Auðlindagarðsins frá því að garðurinn hóf störf í núverandi mynd. Hafa ber í huga að helstu framleiðsluþættir garðsins samanstanda af þjónustu við ferðamenn og orkusölu, m.a. til álframleiðslu, en framleiðni garðsins á hverjum tíma tekur þá mið af þróun þessara þátta á heimsmarkaði. Myndin sýnir framleiðslu Auðlindagarðsins fyrir hvert starf í garðinum frá 2008-2013 á föstu verðlagi. Mynd 12 sýnir að eftir talsverða aukningu framleiðni frá 2010-2012 dró heldur úr árið 2013, en fyrir því eru aðallega þrjár ástæður. Í fyrsta lagi lækkaði álverð á heimsmarkaði árið 2013, en söluverð raforku frá HS Orku tekur mið af þróun álverðs. Í öðru lagi fjölgaði starfsfólki Auðlindagarðsins árið 2013 um tæplega 13% frá fyrra ári. Í þriðja lagi voru a.m.k. tvö fyrirtæki enn í uppbyggingar- og fjárfestingarfasa árið 2013, með litlar sem engar tekjur.

Mynd 12: Virðisauki Auðlindagarðsins á hvert starf


Áframhaldandi vöxtur Auðlindagarðsins?

Skipta má framleiðsluafurðum Auðlindagarðsins í þrjá þætti; ferðaþjónustu, raforku og neysluvörur á erlendan markað (s.s. matvæli og snyrtivörur). Eftirspurnarþættir þessara vara eiga það sameiginlegt að eiga mikið undir þróun á erlendum mörkuðum og almennu efnahagsástandi þar, einkum í Evrópu og Bandaríkjunum þaðan sem flestir erlendir ferðamenn koma. Mynd 13 sýnir að hagvaxtarhorfur á Evrusvæðinu og í Japan hafa heldur dregist saman að undanförnu. Þá hafa efnahagshorfur í Bretlandi og Bandaríkjunum batnað verulega síðustu 12 mánuði.

Mynd 13: Hagvöxtur á ársgrunni

Að því gefnu að gengi (og raungengi) krónunnar haldist stöðugt bendir flest til áframhaldandi fjölgunar ferðamanna sem koma til landsins. Batnandi efnahagshorfur, einkum í Bandaríkjunum, og koma fleiri ferðaþjónustuaðila til landsins munu ýta enn frekar undir þá fjölgun ferðamanna sem þegar hefur átt sér stað. Mynd 14 sýnir þróun raungengis ásamt breytingu á fjölda ferðamanna til landsins milli ára. Myndin sýnir að á árunum 2007-2010 stóð fjöldi ferðamanna í stað og dróst jafnvel lítillega saman. Árið 2011 urðu hins vegar vatnaskil, en þá fjölgaði ferðamönnum um tæplega 16% milli ára. Fjölgunin varð liðlega tveimur árum eftir mikla lækkun raungengis árið 2008. Frá 2008-2011 var raungengið á bilinu 67-85 en hefur verið á bilinu 80-85 frá miðju ári 2013 án teljandi áhrifa á fjölda ferðamanna til landsins. Mynd 15 sýnir þróun á fjölda gistinátta á Íslandi frá árinu 2000.

Mynd 14: Samanburður á raungengi og fjölda gistináttaMynd 15: Fjöldi gistinátta

Horfur eru á vexti útflutnings sjávarafurða árið 2015, sem rekja má til aukins loðnukvóta og hagstæðra grunnáhrifa, þar sem samdrátturinn árið 2013 reyndist meiri en gert hafði verið ráð fyrir. Þó er búist við að nokkuð hægi á vexti útflutnings á næstu tveimur árum og að hann verði í takt við vöxt eftirspurnar helstu viðskiptalanda. Þó gert sé ráð fyrir heldur hægari uppbyggingu í orkufrekum iðnaði en búist var við í fyrra, m.a. vegna breyttra aðstæðna á alþjóðlegum mörkuðum, eru horfur um fjárfestingu jákvæðar. Gert er ráð fyrir framkvæmdum í tengslum við uppbyggingu á þremur kísilverum sem áætlað er að hefji framleiðslu á árunum 2016-2017. Hugmyndir eru einnig uppi um byggingu fjórða kísilversins, sem er nokkru stærra en hin þrjú, og verði af því er áætlað að það hefji framleiðslu á svipuðum tíma.

Framvirkt verð áls og spár markaðsgreinenda benda til þess að álverð hækki nokkuð þegar líður á árið og verði ríflega 4% hærra í ár en árið 2014. Hins vegar er gert ráð fyrir að verð annarra hrávara en olíu lækki í ár um 8%. Þetta er ívið minni lækkun en Alþjóðagjaldeyrissjóðurinn spáði í janúar en nokkru meiri lækkun en Efnahags- og framfarastofnunin (OECD) spáði í nóvember. Þrátt fyrir horfur um lækkandi matvælaverð benda upplýsingar frá helstu útflytjendum til þess að verð sjávarafurða hækki um 3% í ár og kemur sú hækkun í kjölfar ríflega 5% hækkunar í fyrra.

Mynd 16: Stöðugar horfur í þróun álverðs

Að teknu tilliti til horfa í ferðamennsku, ál- og orkuverði og sjávarútvegi eru líkur á áframhaldandi vexti fyrirtækjanna innan Auðlindagarðsins, svo fremi að efnahagsleg þróun innanlands verði með svipuðum hætti og verið hefur síðan 2011.

Nánar um rekstur Auðlindagarðsins

Nánar um rekstur Auðlindagarðsins

Árið 2013 námu heildartekjur fyrirtækjanna innan Auðlindagarðsins um 20,6 milljörðum króna á verðlagi ársins 2014 (staðvirt með vísitölu neysluverðs), og höfðu þá aukist um tæplega tvo milljarða síðan árið 2008. Umsvif garðsins námu því um 1% af vergri landframleiðslu (staðvirt með neysluverðsvísitölu). Framlag til landsframleiðslu var um helmingur af þessu, eða 0,54%. Til samanburðar nam framlag fiskveiða um 5,5% af landsframleiðslu og álframleiðslu um 2,3% árið 2013. Því er ljóst að umsvif Auðlindagarðsins eru umtalsverð í samanburði við stærri útflutningsgreinar landsins. Tafla 3 sýnir nokkrar rekstrarstærðir nokkurra helstu fyrirtækja Auðlindagarðsins frá 2008. Hafa ber í huga að taflan gefur aðeins mynd af rekstri fyrirtækjanna í heild en endurspeglar ekki endilega rekstur einstakra fyrirtækja. Að auki hafa talsverðar breytingar orðið á tímabilinu með stofnun nýrra fyrirtækja.

Mynd 17: Heildartekjur Auðlindagarðsins hafa aukist um tvo milljarða síðan 2008

Á töflu 3 getur að líta þróun heildartekna Auðlindagarðsins frá 2008-2013 auk ársbreytingar á heildartekjum. Það er forvitnilegt að skoða eiginlegan virðisauka eða verðmætasköpun í samanburði við heildarupphæð tekna eða svokallaða veltu Auðlindagarðsins. Mynd 18 sýnir virðisauka þeirra fyrirtækja sem mynda Auðlindagarðinn. Árið 2013 nam heildarvirði virðisauka Auðlindagarðsins um 9 milljörðum og hafði þá aukist um 1,5 milljarða síðan 2008, þ.e. verðmætasköpun hefur vaxið hraðar en velta – og vaxið að meðaltali um 4% á ári á raunvirði. Í lok árs 2013 nam uppsöfnuð heildarfjárfesting fyrirtækjanna innan Auðlindagarðsins um 68 milljörðum króna. Fram undan er veruleg fjármunamyndun, eða sem nemur 20-25 milljörðum króna á næstu 2-5 árum. Af gefnum forsendum hér að framan um vöxt í ferðaþjónustu, þróun álverðs og þróun raungengis, nýfjárfestingu og tilkomu nýrra fyrirtækja má áætla að heildartekjur Auðlindagarðsins árið 2016 muni nema rúmlega 22,5 milljörðum og andvirði virðisauka verði rúmlega 11,5 milljarðar á sama ári.

Tafla 3: Rekstrarstærðir Auðlindagarðsins

Mynd 18: Verðmætasköpun Auðlindagarðsins hefur vaxið hraðar en tekjur 

Mismunandi starfsemi innan Auðlindagarðsins

Fyrirtækin innan Auðlindagarðsins eru ekki einsleitur hópur, en þó skipta má þeim í tvo hópa, þ.e. fyrirtæki í yfirstandandi fjárfestingafasa sem enn hafa ekki skilað framlegð svo neinu nemi og fyrirtæki sem eiga sér rekstrarsögu til nokkurra ára. Segja má að Bláa Lónið, HS Orka, HS Veitur, Háteigur, Haustak og NLI tilheyri síðarnefnda hópnum. Fyrrnefndi hópurinn inniheldur fyrirtæki eins og Stolt Sea Farm, ORF og CRI, en líklegt má telja að fjárfestingar þessara fyrirtækja muni skila aukinni verðmætasköpun á næstu árum.

Enn sem komið er mynda HS Orka og Bláa Lónið hryggjarstykkið í verðmætasköpun Auðlindagarðsins þó svo að útlit sé fyrir aukin umsvif annarra fyrirtækja á næstu árum. Mynd 19 sýnir skiptingu heildartekna helstu fyrirtækja Auðlindagarðsins. Þannig stendur Bláa Lónið fyrir um fjórðungi tekjuöflunar AUðlindagarðsins á sama tíma og HS Orka og HS Veitur skapa um 60% tekna garðsins. Önnur fyrirtæki mynda um 16% af tekjum Auðlindagarðsins.

Mynd 19: Heildartekjur eftir fyrirtækjum Auðlindagarðsins árið 2013

Annar mælikvarði á frammistöðu fyrirtækja er hlutfall rekstrarhagnaðar (EBITDA) sem hlutfall af heildartekjum þeirra. Hátt hlutfall gefur þá til kynna arðbærni í starfsemi. Hafa ber í huga að þessi mælikvarði kann að gefa ranga mynd af rekstri eða möguleikum í rekstri sumra fyrirtækja, einkum þegar um nýsköpunarfyrirtæki er að ræða. Mynd 20 er ætlað að varpa ljósi á eðlismun á starfsemi fyrirtækjanna sem starfa í Auðlindagarðinum. Myndin sýnir að Bláa Lónið stendur fyrir um 42% af heildarrekstrarhagnaði Auðlindagarðsins. Þessar tölur gefa sterka vísbendingu um mikla arðbærni Bláa Lónsins á árinu 2013 umfram önnur fyrirtæki innan Auðlindgarðsins. Sem fyrr segir ber að hafa í huga að nokkur fyrirtæki innan Auðlindagarðsins eru enn í fjárfestingar- og þróunarfasa, sem skýrir vitanlega hve rekstrarhagnaður þeirra er lágt hlutfall af heildartekjum garðsins. Á hinn bóginn hefur Bláa Lónið vaxið gríðarlega frá árinu 2009, en rekstrarhagnaður þess jókst um 25% tvö ár í röð, frá 2011-2013. Vöxtur Bláa Lónsins hefur því verið ævintýri líkastur.

Mynd 20: Rekstrarhagnaður (EBITDA) sem hlutfall af heildartekjum árið 2013


Eðlisbreyting á starfsemi Auðlindagarðsins


Mynd 21: Skipting milli atvinnugreina meaðl fyrirtækja Auðlindagarðsins árið 2015

Margt bendir til þess að eðlisbreyting sé að verða á starfsemi garðsins og viðfangsefnum fyrirtækjanna sem þar starfa. Vægi rannsókna og þróunar hefur aukist auk þess sem umsvif í ýmiss konar þjónustustarfsemi sem tengist erlendum ferðamönnum hafa einnig aukist mikið. Til dæmis fjölgaði starfsmönnum Bláa Lónsins um 50% frá 2008-2013, þá einkum í þjónustutengdri starfsemi. Breytingin felst einnig í aukinni sérhæfingu starfa og umframeftirspurn eftir menntuðu vinnuafli, sem hefur leitt til hækkunar launa umfram meðallaun á Suðurnesjum. Mynd 22 sýnir skiptingu milli starfsgreina meðal fyrirtækja Auðlindagarðsins. Þjónusta og framleiðsla standa fyrir um 73% af heildarmannafla Auðlindagarðsins, tækni- og sérmenntaðir starfsmenn eru um 18% og stjórnendur um 7%. Miklu munar um stofnun fyrirtækja eins og Stolt Sea Farm, CRI og Orf, en tilkoma þeirra hefur átt mikinn þátt í að auka vægi sérmenntaðs starfsfólks í Auðlindagarðinum. Allt bendir til þess að sú þróun haldi áfram á næstu árum samhliða vexti þessara fyrirtækja.

Starfsgreinar Auðlindagarðsins spanna nú vítt svið. Meðal starfsmanna garðsins má m.a. finna starfandi verkfræðinga, lyfjafræðinga, eðlisfræðinga, viðskiptafræðinga, hjúkrunarfræðinga, tæknifræðinga, jarðfræðinga, verkfræðinga, iðnaðarmenn á borð við matreiðslumenn, trésmiði, blikksmiði og rafvirkja auk hefðbundinna framleiðslu- og umsýslustarfa.

Tæplega helmingur starfsmanna Auðlindagarðsins starfa í Bláa Lóninu og það er því eðli málsins samkvæmt stærsti launagreiðandi Auðlindagarðsins. Árið 2013 nam heildarupphæð launa og launatengdra gjalda fyrirtækjanna CRI, Háteigs, Haustaks, Northern Light Inn, ORF Líftækni og Stolt Sea Farm um 1,1 milljarði kr., eða um 28% af heildarupphæð greidds launakostnaðar Auðlindagarðsins. Á hinn bóginn greiddu Bláa Lónið, HS Orka og HS Veitur um 2,9 milljarða í laun og launatengd gjöld árið 2013, eða um 72% af heildarlaunakostnaði Auðlindagarðsins. Mynd 22 sýnir að stærstu launagreiðendur Auðlindagarðsins eru þrír, þ.e. HS Orka, HS Veitur og Bláa Lónið auk fyrrnefndra fyrirtækja.

Mynd 22: Stærstu launagreiðendur Auðlindagarðsins 2013

Auðlindagarðurinn og breiddarhagræði

Auðlindagarðurinn og breiddarhagræði

Eins og fram hefur komið hafa framleiðslugreinar eins og sjávarútvegur og álframleiðsla lagt mikið af mörkum til vaxtar útflutnings og betra jafnvægis í þjóðarbúskapnum síðustu ár. Á sama tíma hafa umsvif ferðaþjónustu aukist verulega, en ætla má að þriðjung hagvaxtar frá árinu 2010 megi rekja til ferðaþjónustu eða greina tengdra henni. Eftir því sem framangreindum atvinnugreinum hefur vaxið fiskur um hrygg hefur aukin nýting, sérhæfing og fjölbreytni innan þessara geira aukist.

Aukin sérhæfing í ferðaþjónustu hefur t.d. endurspeglast í auknu framboði á afþreyingu og vöruúrvali fyrir ferðamenn. Ætla má að stóran hluta þeirra tæplega 5.000 starfa sem skapast hafa í ferðaþjónustu síðan 2010 sé að finna innan slíkra afþreyingar- og framleiðslugeira. Aukin þjónusta og vöruúrval í Bláa Lóninu eru gott dæmi um þetta þar sem orðið hefur veruleg aukning í snyrtivöruframleiðslu og heilbrigðisþjónustu innan Bláa Lónsins síðustu ár.

Á hinn bóginn endurspeglast aukin nýting í sjávarútvegi einkum í betri nýtingu afurða. Sem dæmi má nefna að árið 1993 var einungis unnið úr 1.663 tonnum af aukaafurðum samanborið við 47.000 tonn árið 2010. Í kjölfarið hafa sprottið upp klasar og þyrpingar sem flokkast undir afleidda eða tengda starfsemi þessara framleiðslugreina. Innan þessara klasa og þyrpinga hefur náðst hagkvæmni í rekstri vegna þeirrar svokölluðu stærðar- og breiddarhagkvæmni sem ítarlega verður fjallað um hér á eftir. Svo dæmi sé tekið má flokka samstarfsvettvang Íslenska sjávarklasans sem dæmigerðan klasa, en þar eiga 60 fyrirtæki formlega aðild að samstarfsvettvangi um afar fjölbreytta starfsemi tengda sjávarútvegi.

Á hinn bóginn má segja að Auðlindagarðurinn á Reykjanesi sé dæmi um þyrpingu fyrirtækja sem byggja framleiðslu sína á samnýtingu jarðvarma frá HS Orku og þeirra auðlindastrauma sem koma í kjölfar þeirrar framleiðslu, en fyrirtækin innan Auðlindagarðsins eru öll staðsett í nágrenni við virkjanir HS Orku. Þyrpingin myndar efnahagslega heild sem er öflugri, skilvirkari og sveigjanlegri en einföld summa þeirra fyrirtækja sem mynda hann. Innan Auðlindagarðsins hefur safnast upp reynsla og mannvit í vinnslu jarðvarma, sjávarafurða, snyrtivöru- og lyfjaframleiðslu og ferðaþjónustu sem öll fyrirtækin njóta góðs af. 

Samlegðaráhrif innan þyrpingarinnar endurspeglast einnig í samvinnu í markaðsstarfi, en ein af höfuðáherslum Auðlindagarðsins hefur verið á græna orku og nýtingu hennar við framleiðslu matvöru og snyrtivara auk ferðaþjónustu. Þyrpingin og breiddarhagræðið sem henni fylgir gerir það að verkum að ódýrara er fyrir fyrirtækin að framleiða vörur sínar og þjónustu innan Auðlindagarðsins en utan hans. Heildarkostnaður framleiðslu er lægri og framlegðin meiri en ef fyrirtækin framleiddu vörur sínar án nálægðar hvert við annað.

Þyrpingar skapa framleiðsluvöxt

Meginskýring á klasa- og þyrpingarmyndun í atvinnustarfsemi felst í stærðar- og breiddarhagræði. Stærðarhagkvæmni (e. economies of scale) einkennist fyrst og fremst af lækkun meðalkostnaðar á einingu eftir því sem framleiðsla eykst. Breiddarhagræði (e. economies of scope) skapast á hinn bóginn vegna fjölbreytni atvinnuhátta og vöruúrvals og helst í hendur við nýsköpun og sérhæfingu í atvinnustarfsemi. Þessir tveir þættir eru leiðandi í aukningu framleiðni og hagvaxtar í fyrirtækjarekstri á alþjóðavísu. Áhrif stærðarhagkvæmni eru einkum áberandi í verslun, þjónustu og nýsköpun, sem jafnan eru talin til þéttbýlisatvinnuvega. Slíkar atvinnugreinar þjappast saman nálægt miðju borgarsvæða þar sem viðkomandi starfsemi myndar svokallaða klasa. Fyrirtæki njóta þá góðs af stærri vinnumarkaði þar sem þau geta valið úr stærri hópi af hæfu starfsfólki. Þétting þjónustu og annarra atvinnuvega hefur í för með sér jákvæð ytri áhrif á markaði þar sem mörg fyrirtæki af sama toga fást við nýsköpun og hugmyndavinnu og njóta góðs af hugmyndum hvers annars. Jákvæð ytri áhrif nálægðar við fyrirtæki í sama geira vega þá þyngra en mögulegt tap viðskipta til samkeppnisaðila. Klasar og þyrpingar fyrirtækja leiða svo til stofnunar annarra fyrirtækja sem sjá þeim fyrir nauðsynlegum aðföngum og þjónustu.

Þau jákvæðu áhrif sem nást við klasamyndun verslunar og þjónustu eru af svipuðum toga og áhrif sem jafnan eru kennd við innangreinarviðskipti (e. intra-industry trade), en kenningin um innangreinarviðskipti skv. Heckscher-Ohlin-Ricardo gerir ráð fyrir að mismunandi lönd geti sérhæft sig í mismunandi stigum framleiðslu og eigi þá jafnvel í viðskiptum með svipaðar vörur. Breiddarhagræði hefur verið áberandi í sameiningu og samstarfi fyrirtækja, einkum ef sameiningin snýr að aukinni fjölbreytni í vöruúrvali. Breiddarhagræði hefur einnig verið áberandi í uppbyggingu þekkingarklasa sem byggja á náttúruauðlindum og framleiðsluþáttum sem verða til vegna þeirra. Slíkar þyrpingar eru jafnan strjálli en klasar sem myndast vegna stærðarhagkvæmni.

Mynd 23: Stærðarhagkvæmni í framkvæmd

Sem fyrr segir byggjast hefðbundnir þéttbýlisklasar yfirleitt upp miðsvæðis í borgum á meðan þyrpingar myndast yfirleitt í nágrenni borga eða í nálægð við náttúruauðlindir og jaðri borga þar sem staðsetningarkostnaður er lægri. Greiðar samgönguæðar í nágrenni klasa og þyrpinga eru eitt af frumskilyrðum fyrir myndun þeirra, þar sem lágmörkun flutningskostnaðar hefur mikla þýðingu. Suðurnesin eru gott dæmi um slíka þyrpingu, en þar er að finna stærsta alþjóðaflugvöll landsins auk stórskipahafnar og fyrsta flokks þjóðvegar. Borgarumhverfi einkennist aftur á móti af kerfi stærri klasa sem mynda eina heild. Hver og einn klasi gegnir þá sérstöku hlutverki hvort heldur um þjónustu eða framleiðslu er að ræða. Hagkvæmnin endurspeglast þá einkum í nálægðinni við aðra starfsemi hvort sem um stærðar- eða breiddarhagræði er að ræða.

Stærðarhagkvæmni

Stærðarhagkvæmni sem fylgir þéttbýlismyndun endurspeglast einkum í þremur þáttum:

  1. Innri stærðarhagkvæmni einstakra fyrirtækja
  2. Ytri stærðarhagkvæmni innan einstakra atvinnugreina
  3. Ytri stærðarhagkvæmni milli atvinnugreina og fyrirtækja

Innri stærðarhagkvæmni snýr að lækkun meðalkostnaðar samhliða aukinni framleiðslu. Í því felst að fastur kostnaður dreifist á fleiri einingar, sem hefur í för með sér lækkun meðalkostnaðar. Stærðarhagkvæmni í þéttbýli hefur því alla jafna í för með sér að aukin framleiðsla dreifist á fleiri fyrirtæki og lækkar fastan kostnað þeirra á hverja framleidda einingu.

Ytri stærðarhagkvæmni innan einstakra atvinnugreina á sér stað þegar utanaðkomandi fyrirtæki getur annast ýmsar óreglulegar þarfir fyrirtækis (úthýsing) með minni tilkostnaði en fyrirtækið sjálft með aukinni sérhæfingu. Þéttbýli og nálægð við önnur fyrirtæki getur lækkað kostnað sem slíkri úthýsingu fylgir og aukið framleiðni að því gefnu að stærð markaðarins standi undir slíkri úthýsingu.

Í þriðja lagi er um að ræða ytri stærðarhagkvæmni milli atvinnugreina og fyrirtækja sem á sér stað þegar umsvif í einni grein smita yfir í aðra. Samansafn mismunandi fyrirtækja getur skapað stóran markað fyrir vörur og framleiðsluþætti og gefur kost á sérhæfingu og uppbyggingu þekkingar sem nýtist öllum fyrirtækjunum – ekki aðeins fyrirtækinu sem þróar þekkinguna. Ytri stærðarhagkvæmni gegnir lykilhlutverki í nýtingu menntunar og mannauðs til verðmætasköpunar, einkum þegar tækni-, verslunar- og þjónustuklasar eru annars vegar.

Þegar fyrirtæki og samfélög geta nýtt sér hagkvæmni stærðarinnar leiðir það til örari hugmyndasköpunar, þar sem fleira fólk í sama geira á sama stað skilar aukinni nýsköpun. Í kjölfarið á sér stað þekkingarflakk eða samnýting mannauðs. Um leið og þekking hefur skapast geta allir nýtt hana og starfsmenn bera hana á milli fyrirtækja. Að auki á sér stað sérhæfing aðfangafyrirtækja, þar sem stórar atvinnugreinar skapa grundvöll fyrir nýsköpun og sérhæfingu á aðfangahlið, sem lækkar framleiðslukostnað. Meðal íslenskra dæma um þjónustu- og verslunarklasa eru samansafn fjármálafyrirtækja í Borgartúni í Reykjavík og fyrirtæki þeim tengd auk verslunarmiðstöðvanna Smáralindar og Kringlunnar. Einnig má finna klasa í sjávarútvegi og matvælavinnslu, flugþjónustu, heilbrigðisþjónustu og virkjun fallvatna og jarðhita.

Mynd 24: Breiddarhagræði í framkvæmd

Breiddarhagræði og úrval

Hagkvæmni samfara þéttbýlismyndun getur einnig endurspeglast í breiddarhagræði eða samlegðaráhrifum. Breiddarhagræði og samlegðaráhrif í fyrirtækjarekstri eru jafnan talin meginforsenda í vexti fyrirtækja og atvinnugreina. Reynsla undanfarinna ára sýnir að fyrirtæki hafa í síauknum mæli leitast við að auka vöruúrval með sömu framleiðsluþáttum. Gildir þá einu hvort um er að ræða nýafstaðinn samruna íslenska fjölmiðlafyrirtækisins 365 og fjarskiptafyrirtækisins Tals eða bandarísk stórfyrirtæki á borð við Facebook og Instagram árið 2012. Í sinni einföldustu mynd snýst hugmyndin um breiddarhagræði um að vel heppnuð sameining fyrirtækja getur lækkað fastan kostnað á framleidda einingu, sem og kostnað við dreifingu, markaðsstarf, rannsóknir og þróun.

Það er áhugaverð spurning hvernig hægt er að hámarka verðmæti úr fyrirliggjandi þekkingar- eða náttúruauðlindum. Ein leiðin er að ná fram sem mestri fjölbreytni, bæði í nýtingu auðlindarinnar og í því sem framleitt er á grundvelli hennar. Breiddarhagræði skapast þegar sami framleiðsluþáttur er nýttur til þess að framleiða meira úrval vörutegunda. Aukin fjölbreytni dregur úr áhættu og eykur ábata. Enn fremur dregur fjölgun vörutegunda úr framleiðslukostnaði, en reynslan sýnir að sameining eða samstarf fyrirtækja einkennist oft af breiddarhagræði í bland við ytri stærðarhagkvæmni milli atvinnugreina fremur en hreinni lækkun meðalkostnaðar á hverja framleidda einingu.

Máttur nálægðarinnar gegnir lykilhlutverki og gerir það að verkum að einstaklingar og fyrirtæki hópa sig saman og skapa markfjölda (e. critical mass) sem lækkar framleiðslukostnað, eykur framleiðni og hækkar kaupmátt. Munurinn á stærðarhagræði og breiddarhagræði felst þó einkum í úrvali vörutegunda. Breiddarhagræði endurspeglast aðallega í fjölhæfum framleiðsluferlum þar sem sami framleiðsluferill er nýttur fyrir ólíkar vörur. Þetta getur átt við um fjölbreyttar virðiskeðjur, aukaafurðir eða frákast sem er nýtt til þess að skapa ný verðmæti. Breiddarhagræði kemur þá einnig fram í uppsafnaðri þekkingu eða þekkingarbanka sem nýtist síðan við aðra ótengda framleiðslu. Reynslan sýnir að þetta getur haft í för með sér innviðaáhrif þar sem uppbygging í tengslum við eina atvinnugrein nýtist öðrum atvinnugreinum.