Fyrirtaekin
Fyrirtaekin

Fyrirtækin í Auðlindagarðinum

Fyrirtæki Auðlindagarðsins eru um margt einstök en bera mörg sameiginleg einkenni. Flest fyrirtækin hófu starfsemi sína sem hátæknisprotafyrirtæki. Starfsemi þeirra grundvallast á vísindum, öflugu þróunarstarfi, háu menntunarstigi starfsfólks með tekjur í samræmi við menntun og hæfni, uppfinningum og stöðugri þróun nýrra afurða. Möguleikar Auðlindagarðsins á Suðurnesjum til vaxtar og enn frekari nýsköpunar eru miklir og hvergi á þrotum.

Tvö fyrirtæki Auðlindagarðsins, ORF Líftækni og Carbon Recycling, voru tilnefnd til Þekkingarverðlauna FVH árið 2015. Bláa Lónið hlaut þessi sömu verðlaun árið 2012. Forsendur verðlaunanna 2015 voru verðmætasköpun með óhefðbundinni nýtingu auðlinda, sem lýsir vel starfsemi Auðlindagarðsfyrirtækjanna.

Auðlindagarðurinn hefur lagt grunn að fjölbreyttum vistvænum iðnaði sem er í stöðugri þróun. Helstu afurðir og starfsemi Auðlindagarðsfyrirtækjanna eru: hótelrekstur, fiskþurrkun, framleiðsla afurða úr fiskslógi, eldi hlýsjávarflatfisks, hefðbundin og heilsutengd ferðaþjónusta, náttúruleg meðferð húðsjúkra, ræktun þörunga, vistvænar snyrtivörur með virk efni úr náttúru svæðisins, metanól úr jarðhitagasi, heitt og kalt grunnvatn, gufa, jarðhitavökvi, volgur hreinn sjór o.fl. Fyrirtæki Auðlindagarðsins í grennd jarðvarmaveranna mynda heild sem er virkur vettvangur vísindarannsókna, uppfinninga og þróunar nýrra afurða sem fer að stærstum hluta til útflutnings.

Kristín Vala Matthíasdóttir

Framkvæmdastjóri Auðlinda hjá HS Orku
HSorka2013.jpg
HSorka2013.jpg

HS Orka

Stofnað: 1974
Fjöldi starfsmanna: 60

Hitaveita Suðurnesja varð hlutafélag fyrst íslenskra orkufyrirtækja árið 2000. Í kjölfar breytinga á raforkulögum árið 2008 þar sem kveðið var á um aðskilnað samkeppnis- og sérleyfisstarfsemi raforkufyrirtækja var Hitaveitu Suðurnesja hf. skipt upp í tvö fyrirtæki; HS Veitur hf. og HS Orku hf. HS Orka er þriðja stærsta orkufyrirtæki landsins með um 8% af framleiddri raforku. Félagið er að 2/3 hlutum í eigu kanadíska orkufyrirtækisins Alterra Power og 1/3 hluta í eigu Jarðvarma slhf., félags íslenskra lífeyrissjóða. HS Orka er eina umsvifamikla íslenska orkufyrirtækið sem ekki er í eigu opinberra aðila.

HS orka1

Hlutverk HS Orku er að þjóna atvinnulífi og heimilum með fjölnýtingu auðlinda á sjálfbæran hátt til virkjunar og sölu á vistvænni orku og öðrum afurðum til ávinnings fyrir viðskiptavininn og samfélagið.

HS Orka á og rekur tvö jarðvarmaver, í Svartsengi og á Reykjanesi. Aflgeta jarðvarmaversins í Svartsengi er 74 MWe af rafmagni og 150 MWth af varmaafli. Jarðvarmaverið var byggt upp í sex áföngum á árunum 1976–2015.

Í Svartsengi er jafnframt unnið ferskt grunnvatn úr hraunlögum til dreifingar á Suðurnesjum sem heitt og kalt neysluvatn. Jarðvarmaverið í Svartsengi er fyrsta jarðvarmaverið í heiminum sem sameinar framleiðslu á heitu vatni til hitaveitu og rafmagni (e. CHP, Combined Heat and Power).

Rafmagnsframleiðsla á Reykjanesi hófst í maí 2006, en jarðvarmaverið framleiðir 100 MWe af rafafli í tveimur 50 MWe gufuhverflum. Eimsvalar virkjunarinnar eru sjókældir og nota um 1.600 l/s af hreinum sjó úr borholum, síuðum af hraunlögum. Þennan volga sjó nýtir Stolt Sea Farm Iceland í afkastamiklu hlýsjávarfiskeldi á Reykjanesi. Þessi samþætta framleiðsla varma og raforku gerir jarðvarmaver HS Orku einstök á heimsvísu.

Hs orka2

Hjá HS Orku starfa um 60 manns með breiðan bakgrunn; jarðfræði, forðafræði, verkfræði, tæknifræði, vélfræði, rafvirkjun, vélvirkjun o.fl. Á þeim 40 árum sem fyrirtækið hefur starfað hefur byggst upp mikil reynsla í rekstri flestra gerða jarðhitahverfla, varmaskipta, stjórnloka, gufuskilja, skiljuhljóðdeyfa og annars búnaðar sem notaður er í jarðvarmaverum.

Virkjun jarðhita á Suðurnesjum hefur frá upphafi verið áskorun vegna mikillar seltu, útfellinga og málmtæringar. Þessar áskoranir hafa leitt af sér fyrirtækjamenningu sem einkennist af lausnamiðaðri liðsheild. Staðgóð þekking á grunnvatns- og jarðvarmaauðlindunum, skilningur á mikilvægi liðsheildar, reynsla af samstarfi við innlenda og erlenda framleiðendur tæknibúnaðar, skilningur á mikilvægi órofinnar afhendingar auðlindastrauma jarð¬varmaveranna og lausnamiðað starf eru mikilvægir þættir í uppbyggingu, rekstri og velgengni Auðlindagarðsins.

Hs orka3

HS Orka vinnur að uppbyggingu nýrra jarðvarma- og vatnsaflsvera. Í reynd eru verkefnin ekki virkjanir, þ.e.a.s. eingöngu framleiðsla á rafmagni, heldur myndun fjölbreyttra nýrra auðlindagarða, hvers með sitt sérkenni. Hver og einn auðlindagarður ber merki staðhátta og eðli auðlinda viðkomandi staðar.

Árið 2017 hlaut fyrirtækið Energy Globe Award fyrir Auðlindagarðinn. Verðlaunin eru veitt þeim fyrirtækjum sem skarað hafa framúr í umhverfismálum. Árið 2018 hlaut HS Orka verðlaun Íslensku ánægjuvogarinnar í flokki fyrirtækja á raforkusölumarkaði. Fyritækið hefur hlotið verðlaunin tólf sinnum. Þá fékk félagið einnig forvarnarverðlaun VÍS og Vinnueftirlitsins árið 2015, en þau eru veitt fyrir framúrskarandi forvarnir, umhverfis- og öryggismál.

 • HS Orka er þriðja stærsta orkufyrirtæki landsins og er með um 8% af framleiddri raforku á Íslandi.
 • Jarðvarmaverið í Svartsengi er fyrsta jarðvarmaverið í heiminum sem sameinar framleiðslu á hitaveitu vatni og rafmagni.
 • Árið 2018 hlaut HS Orka verðlaun Íslensku ánægjuvogarinnar í flokki fyrirtækja á raforkusölumarkaði í 12 sinn.


HS Veitur
HS Veitur

HS Veitur

Stofnað: 2008
Fjöldi starfsmanna: 96

Í kjölfar breytinga á raforkulögum var Hitaveitu Suðurnesja hf. skipt upp árið 2008 í tvö sjálfstæð fyrirtæki; HS Orku hf. og HS Veitur hf.

HS Veitur, rótgróið og vel rekið veitufyrirtæki, hefur stækkað og eflst við samruna við önnur veitufyrirtæki. Fyrirtækið annast dreifingu rafmagns, heits vatns og grunnvatns og starfar á fjórum svæðum; Suðurnesjum, Hafnarfirði, Árborg og í Vestmannaeyjum.

Hs veitur

Félagið dreifir rafmagni til tæplega 76.000 íbúa landsins og notar til þess um 1.900 km af lág- og háspennuköplum auk fjölda spenni- og dreifistöðva. Heitu og köldu grunnvatni frá HS Orku dreifir félagið til um 25.000 íbúa á Suðurnesjum. Félagið veitir því mikilvæga grunnþjónustu á stórum hluta suðvesturhornsins og á Suðurlandi. Hjá fyrirtækinu starfa um 96 manns.

 • Félagið dreifir rafmagni til um 76.000 íbúa landsins.
 • Heitu og köldu grunnvatni frá HS Orku dreifir félagið til um 25.000 íbúa.
Blaa lonid heilsulind
Blaa lonid heilsulind

Bláa Lónið Heilsulind

Stofnað: 1992
Fjöldi starfsmanna: 700

Bláa Lónið er nýsköpunar- og frumkvöðlafyrirtæki sem stofnað var árið 1992 af Grími Sæmundsen, lækni og forstjóra fyrirtækisins og Edvard Júlíussyni, frumkvöðli og athafnamanni í Grindavík. Í tuttugu ára sögu fyrirtækisins hefur það lagt áherslu á þekkingaruppbyggingu og rannsóknir.

Afrakstur þessa starfs er fjölþætt starfsemi sem byggir á jarðvarmauðlindinni í Svartsengi. Bláa Lónið er einstakt dæmi um fjölnýtingu og sjálfbæra nýtingu jarðvarmans, og jafnframt gott dæmi um það hvernig vinna má með náttúruauðlindir til verðmætasköpunar.

Bláa Lónið er sá þáttur starfseminnar sem er þekktastur og flestir þekkja.

Bláa Lónið er nú á lista National Geographic sem eitt af undrum veraldar og jafnframt einn vinsælasti áfangastaður erlendra ferðamanna sem heimsækja Ísland. Á síðasta ári heimsóttu 1 milljón gesta Bláa Lónið. Áhersla fyrirtækisins er á að veita öllum gestum hágæðaupplifun. Vöru- og þjónustuframboð hefur verið þróað með tilliti til þessa. Spa meðferðir og nudd í lóninu njóta mikilla vinsælda.

Ása Brynjólfsdóttir

Rannsókna- og þróunarstjóri Bláa Lónsins Heilsulind

Blaa lonid laekningalind
Blaa lonid laekningalind

Bláa Lónið Lækningalind

Lækningamáttur

Lækningamáttur Bláa Lónsins gagnvart psoriasis uppgötvaðist fljótlega eftir að fólk hóf að baða sig í affallslóninu sem myndaðist í kjölfar starfsemi Hitaveitu Suðurnesja. Mikið vatn hefur runnið til sjávar frá þeim tíma. Ýtarlegar vísindarannsóknir hafa verið gerðar á lækningamætti Bláa Lónsins og renna þær styrkum stoðum undir lækningamáttinn. Psoriasis-meðferð Bláa Lónsins hefur hlotið viðurkenningu heilbrigðisyfirvalda á Íslandi og einnig í Danmörku og Færeyjum. Árlega sækja gestir frá 30 þjóðlöndum meðferðina, sem er veitt í Bláa Lóninu Lækningalind. Þar er fullkomin meðferðaraðstaða með sérstöku meðferðarlóni. Í hótelhluta Lækningalindarinnar eru 35 herbergi.

Laekningalind

Blue Lagoon húðvörur

Húðvörur Bláa Lónsins byggja á jarðhitavökvanum og virkum efnum hans. Fyrstu vörurnar voru settar á markað árið 1995. Í dag eru fáanlegar vörulínur fyrir andlit og líkama og m.a. háþróuð vörulína sem dregur úr öldrun húðarinnar.

Laekningalind2

Sjálfbærni og umhverfisvænar vinnsluaðferðir

Í hráefnavinnslu Bláa Lónsins fer fram vinnsla á virkum efnum jarðavökvans ; kísil, söltum og þörungum til nota í húð- og heilsuvörur fyrirtækisins. Vinnsluferlar eru sjálfbærir og umhverfisvænir. Hráefnavinnslan er gott dæmi um nýtingu hinna ýmsu auðlindastrauma frá jarðvarmavirkjun. Í vinnslunni er jarðhitavökvinn nýttur, heit gufa til saltframleiðslu og jarðvarmagas til að fóðra þörunga auk þess sem rafmagn, heitt og kalt vatn er nýtt.

Bláa Lónið leitast við að haga framleiðsluháttum húðvaranna á sjálfbæran og umhverfisvænan hátt. Þar má nefna að Bláa Lónið notast eingöngu við hráefni úr nærumhverfi sínu og hefur einnig þróað grænar vinnsluaðferðir á hráefnum sínum. Árið 2012 var mikilvægt skref stigið þegar Bláa Lónið hóf að nýta CO2-ríkt jarðvarmagas frá orkuveri HS Orku í Svartsengi við ræktun þörunga. Jarðvarmagasið, sem nýtist ekki við raforkuframleiðslu HS Orku, er nýtt sem fóður fyrir þörungana. Að umbreyta útblæstri orkuvera í háverðsafurðir, líkt og gert er við Bláa Lónið á iðnaðarskala, er einstakt á heimsvísu. Húðvörur sem innihalda örþörunga ræktaða á jarðvarmagasi eru nú komnar í framleiðslu og sölu í verslunum Bláa Lónsins


Throunarsetur
Throunarsetur

Bláa Lónið Þróunarsetur

Bláa Lónið hefur allt frá stofnun fyrirtækisins lagt ríka áherslu á rannsóknir á vistkerfi Bláa Lónsins, virkni þeirra náttúrulegu efna sem þar er að finna og áhrif þeirra á heilsu og vellíðan þeirra sem njóta. Þar ber fremst að nefna klínískar rannsóknir á lækningamætti Bláa Lónsins á psoriasis sem unnar hafa verið um áratugaskeið, sem og rannsóknir á virkum innihaldsefnum húðvaranna á öldrun húðarinnar, sem unnar hafa verið í samstarfi við erlent rannsóknarteymi sem sérhæfir sig á því sviði. Öll sú áralanga þekkingaruppbygging styrkir áframhaldandi nýsköpun og vöruþróun innan Bláa Lónsins og gerir fyrirtækið samkeppnishæfara en áður um leið og hún er grunnur frekari vaxtar Bláa Lónsins.

Bláa Lónið er leiðandi hér á landi í ræktun smáþörunga, en fyrirtækið hefur ræktað þörunga í 20 ár.Þörungarnir eru ræktaðir í þar til gerðum ljóstillífunarbúnaði við stýrðar aðstæður. Árið 2012 var mikilvægt skref stigið þegar Bláa Lónið hóf að nýta CO2-ríkt jarðvarmagas frá jarðvarmaveri HS Orku við ræktun þörunga. Að umbreyta útblæstri jarðvarmavers í háverðsafurðir, líkt og gert er hér á iðnaðarskala, er einstakt á heimsvísu.

Tilraunaglos

Hjá Bláa Lóninu starfa um 700 starfsmenn á ársgrunni. Störfin eru afar fjölbreytt og sem dæmi má nefna að hjá Bláa Lóninu starfa læknar, hjúkrunarfræðingar, lyfjafræðingur, leikarar, viðskiptamenntað fólk, almannatenglar, markaðsfræðingar, framleiðslumeistarar og matreiðslumeistarar


Haustak
Haustak

Haustak og Laugafiskur

Haustak

Stofnað: 1999
Fjöldi starfsmanna: 50

Haustak er staðsett í grennd jarðvarmavers HS Orku á Reykjanesi. Fyrirtækið þurrkar dálka og fiskhausa í fersku lofti hituðu með jarðgufu og eru afurðirnar fluttar út til Afríku. Nær öll framleiðsla á þurrkuðum sjávarafurðum er seld til Nígeríu, þar sem Íslendingar eru með um 70% markaðshlutdeild í þurrkuðum fiskafurðum.

Fyrir utan hausaþurrkun stundar Haustak eftirtektarvert þróunarstarf. Til þessa hefur fiskslóg verið urðað með tilheyrandi kostnaði. Fyrirtækið hefur þróað aðferð til að vinna verðmæta olíu úr slógi og stofnað hefur verið fyrirtækið Codland í Grindavík, sem þróar líftækniaðferðir til að vinna lífvirk efni úr slógi. Til viðbótar þessu stundar fyrirtækið fjölbreytta vöruþróun.

Fyrirtækið á sinn stóra þátt í fullnýtingu sjávarfangs sem Íslendingar eru þekktir fyrir bæði innanlands og utan.


Laugafiskur

Stofnað: 1993
Fjöldi starfsmanna: 30

Laugafiskur er fiskþurrkunarfyrirtæki við jarðvarmaver HS Orku á Reykjanesi. Fyrirtækið þurrkar dálka og fiskhausa í fersku lofti hituðu með jarðgufu og eru afurðirnar fluttar út til Afríku. Fyrirtækið stundar fjölbreytta tækni- og vöruþróun.

Fyrirtækið á stóran og eftirtektarverðan þátt í fullnýtingu sjávarfangs sem góður gaumur er gefinn innanlands og utan.


Halldór Smári Ólafssn

Framleiðslustjóri Haustaks hf.
 • Haustak hefur þróað aðferð til að vinna verðmæta olíu úr slógi og vinnur því eftirtektarvert þróunarstarf.
 • Fyrirtækið Codland í Grindavík þróar líftækniaðferðir til að vinna lífvirk efni úr slógi.
 • Íslendingar eru með um 70% markaðshlutdeild í þurrkuðum fiskafurðum í Nígeríu.
 • Fyrirtækið Laugafiskur þurrkar dálka og fiskhausa í fersku lofti sem er hitað með jarðgufu.
NLI-Deluxe-Room.jpg
NLI-Deluxe-Room.jpg

Northern Light Inn

Stofnað: 1983
Fjöldi starfsmanna: 48

Northern Light Inn hótelið var byggt árið 1983, þá 12 herbergi, en hótelið hefur nú verið stækkað í 42 herbergi. Jafnframt hefur verið byggður veitinga- og fundarsalur sem rúmar allt að 150 manns og ber veitingasalurinn nafnið Max’s Restaurant. Þá er að finna á hótelinu líkamsræktaraðstöðu, heilsulind og Aurora Floating flottanka. Staðsetning hótelsins helgast fyrst og fremst af nálægð þess við Bláa lónið, jarðvarmaver HS Orku og hversu gott er að fylgjast með norðurljósunum á vetrarkvöldum. Nálægðin við flugvöllinn og sérstakar jarðmyndanir Reykjanesskagans vega einnig þungt í staðsetningunni.

Northern Light Inn er gott dæmi um fyrirtæki í ferðaþjónustu sem nýtir ekki eingöngu auðlindastrauma frá jarðvarmaveri HS Orku heldur einnig þá auðlind sem náttúran er. Hótelið hefur oft hýst vísindamenn, sérfræðinga erlendra fyrirtækja í þjónustu við jarðvarmaver HS Orku og hópa fólks sem hafa gagngert komið í Svartsengi til að sækja jarðvarmavinnustofur og kynna sér starfsemi jarðvarmaversins og að undanförnu Auðlindagarðsins. Hótelið veitir fyrirtækjum Auðlindagarðsins fyrsta flokks þjónustu og er því virkur þátttakandi í honum.

NLI front.jpg

 • Staðsetning hótelsins helgast af nálægð þess við Bláa lónið, HS Orku og hversu gott er að fylgjast með norðurljósunum á veturna.
 • Northern Light Inn nýtir ekki eingöngu auðlindastrauma frá jarðvarmaveri HS Orku heldur einnig þá auðlind sem náttúran er.

Orf liftaekni
Orf liftaekni

ORF Líftækni

Stofnað: 2001
Fjöldi starfsmanna: 30

ORF Líftækni er leiðandi líftæknifyrirtæki stofnað af þremur vísindamönnum árið 2001. Tíu ára líftæknirannsóknir lögðu grunn að fyrirtækinu í þeirri mynd sem nú er. Fyrirtækið framleiðir og selur vaxtarþætti fyrir læknisfræðirannsóknir og húðvörur og byggir framleiðslan á einstakri erfðatækni sem gerir kleift að framleiða vaxtaþætti og önnur prótein í byggi.

Árið 2008 reisti ORF 2.000 m2 gróðurhús í Grindavíkurbæ ekki langt frá jarðvarmaveri HS Orku, gróðurhús sem í daglegu tali er nefnt Græna smiðjan. Í þessu hátæknivædda gróðurhúsi, þar sem full stjórn er höfð á öllum ytri aðstæðum, eru 130.000 byggplöntur vatnsræktaðar í vikri í 90 daga. Í fræjum plantnanna eru vaxtarþættirnir/frumuvakarnir framleiddir. Notkunarsvið frumuvaka er vítt: stofnfrumurannsóknir, frumurækt, vefjarækt, stofnfrumulækningar, líffæraígræðslur, lyf, húðvörur o.fl. 

Framleiðslan er græn í þeim skilningi að hún bindur meira af koltvísýringi en hún losar út í andrúmsloftið.
ORF er eina fyrirtækið í heiminum sem hefur þróað og komið á alþjóðlegan neytendamarkað vörumerki sem byggir á plöntulíftækni. 

Dótturfyrirtæki ORF, Sif Cosmetics, framleiðir og selur snyrtivörur undir vörumerkjunum EGF á Íslandi og BIOEFFECT erlendis. Klínískar rannsóknir virtra erlendra vísindamanna hafa sýnt fram á virkni snyrtivaranna sem vinna gegn öldrun húðarinnar. Vörurnar eru nú seldar í yfir 700 verslunum í 25 þjóðlöndum.

Björn Lárus Örvar

Framkvæmdastjóri ORF Líftækni hf.
cri 2.jpg
cri 2.jpg

Carbon Recycling Int.

Stofnað: 2006
Fjöldi starfsmanna: 42

Carbon Recycling International (CRI) er hátæknifyrirtæki sem náð hefur forystu á heimsvísu á sviði hagnýtingu koltvísýrings. Verksmiðja CRI, sem nýtir ólíka auðlindastrauma jarðvarmavirkjunarinnar í Svartsengi, er sú eina sinnar tegundar í heiminum sem nýtir koltvísýring til framleiðslu á endurnýjanlegu metanóli á iðnaðarskala. Metanólið sem þar er framleitt er sjálfbært eldsneyti sem skilar 90% minnkun á losun koltvísýrings samanborið við bensín eða dísel og telur tvöfalt í útreikningum á hlutfalli endurnýjanlegrar orku í samgöngum. Það er selt á erlendum mörkuðum til íblöndunar, til lífdísilframleiðslu eða sem upprunaefni til framleiðslu ýmissa efnavara. Í ferli CRI er endurnýjanleg orka nýtt til þess að búa til vetni með rafgreiningu sem felur í sér klofning vatns í upprunaefni sín, vetni og súrefni, með rafmagni. Þetta hreina vetni er svo hvarfað við koltvísýring sem unnin er úr jarðhitagasi frá jarðvarmaveri HS Orku, með notkun sérstakrar samsetningar efnahvata og úr verður endurnýjanlegt metanól í vökvaformi. Metanólið nýtur þannig þeirrar sérstöðu að geyma íslenska orku sem og endurnýttan koltvísýring sem ljáir vöru þeirri sem það er nýtt í mun minna kolefnisfótspor en í tilviki hefðbundins metanóls. Vörumerki metanólsins er “Vulcanol” sem er skírskotun til uppruna orkunnar sem nýtt er við framleiðslu þess. Efnaferillinn í heild er þróaður af CRI og eru hlutar hans varðir með einkaleyfum félagsins.

Árið 2012 hóf CRI tilraunarekstur verksmiðjunnar. Framleiðslugeta hennar var 1,5 milljónir lítra af metanóli á ári. Þremur árum seinna var hún stækkuð og framleiðslugetan aukin í 5 milljónir lítra á ári en fyrir slíka framleiðslu endurnýtir CRI 5500 tonn af koltvísýringi. Sama ár hóf CRI markaðssetningu tæknilausnar sinnar, sem nýtt getur koltvísýring og vetni frá ýmsum iðnferlum. Jafnframt hófst þróun verkefna í Evrópu og Kína en fyrirtækið hefur komið á fót dótturfyrirtæki í Shanghai og gert rammasamninga um áframhaldandi þróun verkefna um byggingu metanólverksmiðja. Þá tekur fyrirtækið ítrekað þátt í rannsóknarverkefnum sem miða að áframhaldandi þróun á sviði hagnýtingar koltvísýrings og rafgreiningar. Þar sem hönnun verksmiðjunnar og rannsóknarvinna í tengslum við framkvæmd tæknilausnar hennar erlendis er á höndum Íslendinga, má til sanns vegar færa að sérhæfð íslensk þekking, tækni og reynsla sé orðin ein af útflutningsafurðum Auðlindagarðsins.

Framtíðaráform CRI eru bygging og rekstur verksmiðja á Íslandi, í Evrópu og í Kína sem byggja á tæknilausnum fyrirtækisins en með mun meiri framleiðslugetu en verksmiðjan í Svartsengi, 50 tl 100 þúsund tonn árlega.

 • CRI hyggst reisa fjölda verksmiðja á komandi árum
 • CRI rekur nýstárlega verksmiðu í grennd við jarðvarmavirkjun HS Orku þar sem eldsneyti er unið úr koltvísýringi
 • Verksmiðja CRI í Svartsengi er sú eina í heiminum sem vinnur eldsneyti úr koltvísýringi á stórum skala
StoltSeaFarm-Flura.jpg
StoltSeaFarm-Flura.jpg

Stolt Sea Farm Iceland

Stofnað: 2012
Fjöldi starfsmanna: 20

Fiskeldisfyrirtækið Stolt Sea Farm Iceland, sem stofnað var árið 2012, á og rekur hátæknifiskeldi á Reykjanesi skammt frá jarðvarmaveri HS Orku. Fyrirtækið er í eigu spænska fyrirtækisins Stolt Sea Farm, stofnað 1972 og er það dótturfyrirtæki Stolt-Nielsen Limited. Afurðir Stolt Sea Farm eru sandhverfa, flúra, styrja og kavíar. Eldið er afar tæknivætt og fer fram í sérhönnuðum eldisstöðvum. Að baki eldinu liggja miklar rannsóknir og áralöng þróun sem tekur til líffræði, fóðurs og lífvenja lífveranna.

Eimsvalar hverfla jarðvarmaversins á Reykjanesi eru kældir með sjó úr borholum sem síaður er í gegnum hraunlög. Síaði sjórinn kemur í eimsvalana um 8-9 °C og fer frá þeim um 35 °C og fer hluti volga sjávarins til fiskeldisins. Fiskeldið blandar volga sjóinn með síuðum köldum borholusjó og fær við það eldissjó við kjörhitastig fisksins. Tandurhreinn sjór við kjörhitastig eldisins árið um kring er sérstaða sem eykur öryggi og afkastagetu eldisins.

stolthus

Í stöðinni er alin Senegalflúra til útflutnings. Fyrsti áfangi eldistöðvar er 500 tonna ársframleiðsla. Sala afurða hófst á fyrsta ársfjórðungi 2015. Flúran er hágæðavara sem er nær eingöngu seld fersk inná markað í Evrópu og Bandaríkjunum.

Stöðin er hönnuð til eldis 2.000 tonna á ári og verður hún því stækkuð í næstu framtíð. Í fyrsta áfanga stöðvarinnar starfa nú 20 manns en eftir stækkun hennar verða þeir um 70 talsins.

 • Fiskeldið blandar volga sjóinn með síuðum köldum borholusjó og fær við það eldissjó við kjörhitastig fisksins.
 • Stöðin er hönnuð til eldis 2.000 tonna á ári. Í fyrsta áfanganum starfa nú 20 manns en eftir stækkun verða þeir um 70 talsins.
 • Eldið er afar tæknivætt en að baki eldinu liggja rannsóknir og löng þróun sem tekur til líffræði, fóðurs og lífvenja lífveranna.