Saga jarðvarma á Reykjanesi

1755

Fyrstu tilraunaboranir á jarðvarmasvæðum

Íslenskir frumkvöðlar fóru snemma að velta fyrir sér hvernig nýta mætti náttúruundur jarðvarmans enda lega Íslands á flekaskilum Ameríkuflekans og Evrasíuflekans einstök. 

Eggert Ólafsson skáld og náttúrufræðingur og Bjarni Pálsson landlæknir voru brautryðjendur í jarðhitarannsóknum. Þeir lögðu upp í rannsóknarför um landið árið 1752 og ferðuðust um landið í ein sex ár. 

Rannsóknir þeirra voru þær merkustu sem gerðar höfðu verið til þess tíma. Þeir lýstu meðal annars hverum, brennisteinsnámum og ölkeldum víða um land. 

Árið 1755 gerðu Eggert og Bjarni tilraunaboranir við Laugarnesið í Reykjavík í þeim tilgangi að kanna jarðlög vegna brennisteinsvinnslu. Ári seinna gerðu þeir aðra tilraun til að bora eftir brennisteini í Krýsuvík.  Ekki varð þó af almennri nýtingu jarðvarmans fyrr en nokkru seinna. 

1904

Fyrsta rafveitan á Íslandi rís við lækinn í Hafnarfirði

Jóhannes Reykdal setti upp litla vatnsaflsvirkjun í Hamarskotslæknum í Hafnarfirði. Íslenskir bændur höfðu nýtt vatnsaflið til eigin nota en virkjun Jóhannesar var sú fyrsta sem framleiddi rafmagn sem dreift var í hús í bænum. Hafnarfjörður varð þar með fyrsti raflýsti bærinn á Íslandi. 

Á þessum tíma var jarðvarminn einkum nýttur til þvotta þar sem hans naut við á lághitasvæðum. 

1930

Boranir eftir heitu vatni í Laugardalnum hefjast

Jarðvarminn var notaður til að hita upp skóla, sjúkrahús, sundlaug og sextíu hús í austurbæ Reykjavíkur. 

Nýting jarðvarmans var augljóst framfaraskref og húshitun í Reykjavík varð til þess að aðrar sveitastjórnir horfðu til þess að auka húshitun með jarðvarma. 

Árið 1953 samþykkti bæjarstjórn Keflavíkur að veita 20 þúsund krónur til rannsókna á hitaveitu. Árið 1971 voru 98% Reykvíkinga komnir með hitaveitu. 

1974

Hitaveita Suðurnesja stofnuð

Hitaveita Suðurnesja var stofnuð 31. desember 1974, með lögum frá Alþingi, í þeim tilgangi að nýta jarðvarmann til húshitunar á svæðinu. 

Árið 1975 var fyrst borað eftir köldu vatni og varmaskiptastöð reist í Svartsengi. Sama ár varð Ingólfur Aðalsteinsson ráðinn sem fyrsti starfsmaður fyrirtækisins en hann tók síðar við sem forstjóri. 

Bráðabirgðastöðin við Svartsengi var gangsett árið 1976 og heitu vatni hleypt á félagsheimilið Festi í Grindavík fyrst húsa á Suðurnesjum. Albert Albertsson hóf störf sem yfirverkfræðingur hjá Hitaveitu Suðurnesja árið 1977.

Önnur merk tímamót í sögu fyrirtækisins voru árið 1978 þegar raforkuframleiðsla með jarðvarma hófst með gangsetningu tveggja 1MW gufuhverfla. 

1980

Bráðabirgðaaðstaða sett upp við Bláa Lónið

Samhliða starfsemi Hitaveitu Suðurnesja og virkjun jarðhitavökvans í Svartsengi myndaðist fagurblátt lón úr jarðhitavökva virkjunarinnar. Snemma varð vinsælt að baða sig í vökvanum enda hæfilega heitur. 


Valur Margeirsson var fyrstur til að átta sig á jákvæðum áhrifum jarðhitavökvans á psoriasis og jókst umferð psoriasis-sjúklinga í lónið mikið í kjölfarið. Þessi þróun var með öllu ófyrirséð þegar lónið tók að myndast og skömmu síðar sá Hitaveita Suðurnesja engan annan kost en að koma upp bráðabirgðaaðstöðu við lónið fyrir almenning.  

Gamalt líkhús var flutt úr Keflavík og sett upp til afnota fyrir gesti lónsins. Líkhúsið tók við af litlum skála sem settur hafði verið upp af verktökum og var í daglegu tali kallaður Hrúðurkallakot. Lónið fékk fljótt nafngiftina Bláa Lónið.  

1987

Bláa lónið opnar baðaðstöðu fyrir almenning

Vinsældir Bláa Lónsins jukust jafnt og þétt og árið 1987 var ákveðið að bæta aðstöðuna og aðgengi að lóninu með opnun baðaðstöðu fyrir almenning. Einnig var sett upp sérstök aðstaða með aðkomu ríkisins og landlæknis fyrir psoriasis-sjúklinga. Heitavatns- og raforkuframleiðsla í Svartsengi jókst jafnt og þétt og í lok áratugarins var uppsett afl í Svartsengi orðið 11,6MW.

1990

Fiskþurrkun hefst á Reykjanesi með gufu frá jarðhitasvæðinu

Skreið er framleiðsluheiti yfir þurrkaðan, afhausaðan fisk. Íslendingar hafa þurrkað fisk í aldaraðir og áður fyrr var skreiðin mikill þáttur í neyslu landsmannna og einnig sem verslunar- og útflutningsvara. 

Öll skreið síðustu aldar hefur verið framleidd til útflutnings. Margar fiskþurrkanir má sjá við Reykjanesskagann. Nýting jarðhita til þurrkunar fiskafurða hófst á Reykjanesi árið 1990. 

Íslenska ríkið hafði borað nokkrar tilraunaholur á Reykjanesi í þeim tilgangi að athuga með fýsileika jarðvarmavinnslu á svæðinu. Hitaveita Suðurnesja tók svæðið seinna yfir og byggði þar orkuver. 

Með aukinni nýtingu jarðvarmans umhverfis jarðvarmaver Hitaveitu Suðurnesja komst skýrari mynd á Auðlindagarðinn. Fjölnýtingarhugsunina og möguleikar hennar til að stuðla að sjálfbærri þróun samfélagsins fóru að mótast betur í huga Alberts Albertssonar. Nú eru tvö fyrirtæki á Reykjanesi sem sérhæfa sig í þurrkun fiskafurða og nýta jarðhitann sem kemur frá jarðvarmaveri HS Orku.

1992

Bláa lónið hefur rekstur í núverandi mynd

Bláa Lónið hf. var stofnað árið 1992 og hefur frá þeim tíma unnið markvisst að því að skapa verðmæti úr hinni náttúrulegu auðlind sem jarðvökvinn er. Vinsældir Bláa Lónsins hafa aukist mikið á síðustu árum og hróður þess borist langt út fyrir landsteinana.  National Geographic hefur nefnt lónið gjöf jarðvarmans (e. Geothermal gift of nature). 

Rafaflsframleiðsla í lok árs 1999 var komin í um 50 MW í Svartsengi. 

2006

Jarðvarmaverið á Reykjanesi tekur til starfa

Raforkuframleiðsla hófst í 100 MW jarðvarmaveri á Reykjanesi. Nýtt jarðvarmaver opnaði mikla möguleika á stækkun Auðlindagarðsins og rúmlega tvöfaldaði afl- og orkugetu fyrirtækisins. Sama ár var tekin fyrsta skóflustungan að 30MW stækkun í Svartsengi með byggingu 6. áfanga jarðvarmaversins. 

ORF Líftækni gerði fyrstu virknimælingarnar á vaxtaþætti framleiddum í byggi sem lagði grunn að starfsemi fyrirtækisins. Íslenska ríkið tilkynnti um ákvörðun sína að selja hlut sinn í HS hf.

Rafaflsframleiðsla HS Orku var í lok árs um 145 MW.

2008

HS Orka verður til

Nafni Hitaveitu Suðurnesja var breytt í HS Orku á árinu og nýtt fyrirtæki, HS Veitur stofnað til að sjá um rekstur dreifikerfa. Breyting á rekstrarformi orkufyrirtækja þar sem kveðið var á um aðskilnað samkeppnis- og sérleyfisstarfsemi í tvö aðskilin fyrirtæki með sjálfstæðar stjórnir var ákveðin með lögum nr. 58 frá 7. júní 2008. 

30MW Orkuver 6 var gangsett 3. apríl. Með því var uppsett afl jarðvarmavera HS Orku komin í 175 MW. 

2014

Framtíð Auðlindagarðsins

Í fyrirtækjum garðsins felast miklir þróunar- og vaxtarmöguleikar sem grundvallast á reynslu þeirra, rannsóknum og þróun aðferða og nýrra afurða. Fyrirsjáanlegt er að fleiri fyrirtæki, og þá af öðrum toga en þau sem fyrir eru, muni leita inngöngu í garðinn og þar með styrkja hann. Mikilvægt er að ímynd Auðlindagarðsins sé gegnsæ og skýr og samhljómur milli fyrirtækjanna sem í garðinum starfa svo og þeirra sem inn í garðinn koma.

Ef eingöngu er litið til framleiðsluaukningar hjá fyrirtækjunum sem nú skipa Auðlindagarðinn er ljóst að vaxtarmöguleikar garðsins eru miklir. Nú þegar liggja fyrir áætlanir um frekari framkvæmdir og fjárfestingar á vegum fyrirtækjanna. Fjölgun fyrirtækja er jafnframt fyrirsjáanleg, þá með nýja og fjölbreytta nýtingu á auðlindastraumum. 

Þó að frá jarðvarmaverunum komi einungis ákveðinn fjöldi auðlindastrauma, sem hver um sig hefur hámarks afkastagetu, á auðlindagarðshugsunin sem slík sér engin takmörk. Aðgengilegir straumar ákvarðast af gerð og afli jarðvarmaveranna hverju sinni. En auðlindastraumar koma ekki einungis frá jarðvarmaverunum, þeir geta einnig streymt frá einu fyrirtæki til annars innan garðsins.