Stefnir á

samfélag án sóunar

Scroll to explore
Location - Reykjanes - Iceland

Auðlindagarðurinn

HS Orka rekur nú tvö orkuver í Svartsengi og á Reykjanesi. Kjarnastarfsemi þeirra hefur verið í framleiðslu á rafmagni og heitu vatni. Vegna heppilegrar staðsetningar og einstakra aðstæðna er mögulegt að nýta afgangsstrauma frá orkuverunum til fjölbreyttrar framleiðslu. Meðal fyrirtækja sem njóta góðs af starfseminni má nefna Bláa Lónið, snyrtivöruframleiðendur, auk líftækni- og fiskeldisfyrirtækja.

Auðlindagarðurinn sem þróaður hefur verið í nágrenni orkuvera HS Orku á Suðurnesjum er einstakur í sinni röð. Hann boðar nýja framtíðarsýn og hvetur til enn frekari þróunar á nýtni afgangsstrauma frá orkuverunum.

Viltu verða partur af auðlindagarðinum? Hafðu samband!

Ný hugsun

Auðlindagarðurinn hefur sannað gildi sitt, sem sést þegar litið er til fjölda fyrirtækja í nágrenninu sem nýta affallið frá orkuverunum til eigin framleiðslu. Vaxtarmöguleikarnir eru nær óendanlegir og er Auðlindagarðurinn tilbúinn í samstarf við fyrirtæki með starfsemi á borð við lóðrétta gróðurhúsaræktun, þörungaræktun, fiskeldi og jafnvel annan sjálfbæran rekstur sem vitum ekki enn af!

Auðlindagarðurinn á Reykjanesi býður samkeppnishæft verð á endurnýjanlegri orku og sjálfbært frárennsli frá orkuverum sínum, auk skilvirkra flutningsleiða til meginlands Evrópu og Norður-Ameríku.

Steam
Brine
CO2
Electricity
Cold water
Hot water

Hugmyndasmiður Auðlindagarðsins

Albert Albertsson er hugmyndasmiðurinn að Auðlindagarði HS Orku. Hann fæddist árið 1948 og ólst upp við kröpp kjör hjá ömmu sinni og afa í Þingholtunum í miðbæ Reykjavíkur. Þar á bæ var engu hent. Allar afurðir voru nýttar til hins ýtrasta. 

Sem ungur drengur varð Albert hugfanginn af indíánum og þá sérstaklega hugmyndafræði þeirra um að ættbálkarnir veiddu aldrei meira en þörf var á. Að þeir skildu eftir sig sem fæst fótspor og gengu ekki of nærri móður jörð. 

Albert heillaðist einnig af svokölluðum svartstrókum (e. black smokers) sem eru neðansjávar hverir sem spúa heitum jarðhitavökva út í kaldan sjóinn. Þótt vökvinn sé eitraður myndast fjölskrúðugt líf í kringum hann.

Þessa fallegu sýn á lífið yfirfærði Albert á Auðlindagarð HS Orku. Þar hefur í tuttugu ár verið unnið eftir kjörorðinu „Samfélag án sóunar“. Í því felst að nýta beri allar þær auðlindir sem streyma inn og út úr garðinum til fullnustu og á sem ábyrgastan hátt. Í rauninni er ekki til neitt sem heitir rusl heldur einungis hráefni – verðmætar auðlindir sem hægt er að nýta í ólíka framleiðslu.